Flestir kannast líklega við að hafa horfst í augu við bólur og fílapensla – ótrúlega pirrandi fyrirbæri. Undir niðri vitum við að það má ekki kreista – mamma sagði það og konan á snyrtistofunni líka – en látum samt vaða…
„Það er af mörgum ástæðum sem ég mæli ekki og helst aldrei með því að fólk sé að kreista heima hjá sér,” segir Erna Gísladóttir snyrtifræðingur og eigandi Snyrtistofunnar á Garðatorgi. „Heima freistast fólk til að ráðast á fílapensla og bólur og hefur jafnvel ekki þvegið hendur áður. Húðin er engan veginn tilbúinn til að takast á við þessa árás, hún er köld og erfið viðureignar,” segir Erna.
„Þegar húðin er kreist þarf að hreinsa vel fyrst og hita – helst í gufu – svo hún verði mjúk og auðveldari að eiga við. Þá skiptir miklu máli að kreista rétt og ná öllum óhreinindunum í burtu, annars getur skapast stærra vandamál. Í lokin er mikilvægt að setja maska á svæðið sem hefur verið kreist til að róa húðina og draga hana saman. Ef við setjum ekki maska, þá skiljum við eftir op í húðinni sem fyllast strax af óhreinindum aftur.”
Til að koma í veg fyrir fílapensla hjálpar mikið að hreinsa húðina kvölds og morgna og nota kornakrem eins oft og húðin þolir.
Birtist á Pressunni – Katrín Brynja Hermannsdóttir.