Brasilískt vax

Beautician Waxing A Woman's Leg

Vinsældir brasilísks vax hafa aukist gífurlega undanfarin misseri. Ástæðan er ekki bara tíska og tíðarandi, heldur er fólk sem hefur prófað það sammála um að þetta sé mun betra en rakstur á þessu viðkvæma svæði. Rakstur eykur og örvar hárvöxt, en með því að vaxa svæðið þá minnkar hárvöxturinn til lengri tíma. Hárin eru lengur að koma upp og verða fínni með tímanum.

En fyrir hverja er þetta?

Fyrir þær konur sem kjósa að láta fjarlægja öll hárin á þessu svæði án þess að auka hárvöxtinn. Eftir vaxið er maður laus við harða brodda sem er leiðinlegur fylgifiskur raksturs.

Hvað er gott að vita áður en komið er í vax í fyrsta skipti?

Mikilvægt er að hárin séu ekki of stutt því þá getur verið erfitt að ná þeim. Best er að viðkomandi sé búinn að safna sirka 0,5-1cm. þannig að hægt sé að fjarlægja hárin frá rót.

Langbest er að viðkomandi sé ekki í nærbuxum þegar verið er að vaxa svæðið og það er eðlilegasti hlutur hjá okkur. Við erum mjög vanar og gerum þetta oft á dag!

Gott er að vera í víðum buxum til að fara í eftir á.

Ef mér líkar þetta, hvenær kem ég aftur? 

Best er að koma aftur innan 3-5 vikna, þetta er einnig mjög persónubundið, sumir eru lengur að fá hárin aftur en aðrir. Eins og í fyrsta skipti er best að hárin séu orðin sirka 0,5-1cm löng.

Er þetta vont? 

Brasilískt vax myndi seint flokkast sem þægileg dekurmeðferð. Það er að vísu mjög misjafnt og fer eftir sársaukaþröskuldi hvers og eins hvort honum finnist þetta vont eða bara óþægilegt. Langflestir eru sammála því að fyrsta skiptið sé verst, en ánægjan endist miklu lengur en eftir rakstur.

Þarf að gera eitthvað dagana á eftir? Eitthvað sem þarf að passa? 

Já, það eru nokkrir hlutir sem hafa þarf í huga eftir brasilískt vax. Við erum að rífa hárin upp með rótum sem þýðir að eftir vaxið eru hársekkirnir opnir og þurfa tíma til að jafna sig. Því er ekki ráðlegt að fara í ræktina, sund eða ljós, stunda kynlíf eða ganga í þröngum buxum í sólarhring eftir vaxið. Í sumum tilfellum er gott að hlífa svæðinu á þennan hátt í tvo sólarhringa.

Best er að bíða með að fara í sturtu í einn dag. Það er ótrúlega gott að skrúbba sig 3 dögum eftir vaxið til þess að forðast að fá inngróin hár. Svo er einnig gott að skrúbba þegar hárin eru að koma upp aftur og það er mikilvægt ef viðkomandi er gjarn á að fá inngróin hár, en þá er sniðugt að skrúbba sig tvisvar í viku og nota ampúlu gegn inngrónum hárum.

En ef ég er á blæðingum? 

Það er mjög persónubundið hvort konur mæta í vax af þessu tagi þegar þær eru á blæðingum. Það getur verið vesen ef konur eru með túrtappa því bandið getur flækst fyrir. Einnig eru konur viðkvæmari fyrir vaxinu á meðan á blæðingum stendur svo við mælum með því að bíða þar til blæðingum er lokið.

Hvað tekur þetta langan tíma?

Svona vaxmeðferð tekur um 30 mínútur þó getur fyrsta skiptið tekið lengri tíma og einnig ef hárvöxtur er mjög mikill.