Eitt er það sem alltaf er í tísku og það er húð sem vel er hugsað um, eða eins og þeir segja í landi tækifæranna: „Beautiful skin is always in.“ Flestir vilja helst lýtalausa húð, sama hvað erfðirnar segja.
Umhirða húðarinnar er jafn sjálfsögð og hreinar tennur. „Með því að kenna börnunum okkar og unglingum að hugsa vel um húðina aukum við líkurnar á fallegri húð,“ segir Erna Gísladóttir snyrtifræðingur og eigandi Snyrtistofunnar á Garðatorgi.
Óhreinindi leynast víða
Hún segir hreinlæti skipta langmestu máli og þegar stelpur fari að mála sig þurfi þær að huga sérstaklega vel að því að þrífa húðina fyrir nóttina. Þá fær húðin frið til að koma óhreinindum upp á yfirborðið og þau þarf að þrífa áður en haldið er út í daginn – þetta á við alla á öllum aldri.
„Stelpurnar fá oft lánaðan maskara, meik og púðurbursta hjá vinkonunum og hafa ekki hugmynd um hvort græjurnar hafi nokkurn tímann verið þrifnar. Bursta og svampa þarf að þvo reglulega því það er ótrúlegt hversu mikil óhreinindi safnast þar,“ segir Erna.
Strákarnir vilja líka fallega húð
Hún segir svolítið erfiðara að ná til strákanna en þeir vilji ekkert síður hafa fína húð. Þeir þurfi líka að hugsa um húðina en Erna segir sömu vörur eða skilaboð ekki henta báðum kynjum. Erna mælir með að strákarnir fái sérstaka andlitssápu sem þeir geti notað í sturtunni.
Bæði stelpur og strákar ættu að nota milt kornakrem reglulega til að koma í veg fyrir að húðin stíflist með tilheyrandi leiðindum. „Best er að hreinsa húðina kvölds og morgna ALLA DAGA og sérstaklega ef um vandamálahúð er að ræða.“
Mömmupexið fær oft litlar undirtektir
„Langfæstir strákar, og bara unglingar yfirleitt nenna að hlusta á pexið í mæðrunum og þrif á húðinni er ekki efst á forgangslistanum hjá þeim. En með því að kenna þeim og fara jafnvel með þá á snyrtistofu áður en allt er komið í óefni, þá er hægt að hjálpa heilmikið til. Unga fólkið fer frekar eftir ráðum snyrtifræðings en foreldranna,“ segir Erna og brosir, „það er bara þannig“.
Best er ef unglingarnir fari til snyrtifræðings um leið og húðin byrjar að breytast. „Það er ótrúlega gaman að sjá þegar ungt fólk sem hefur komið í húðhreinsun nær að viðhalda góðum árangri heima. Það þarf oft ekki mikið til að ýta við þeim,“ segir hún.
Unglingavörur ákjósanlegar
Hún ráðleggur mæðrum frá því að láta unglingana nota vörurnar þeirra sem séu gjarnan of öflugar og geti jafnvel virkað alveg öfugt, séu þær notaðar á unga húð. „Það eru til unglingalínur í mörgum merkjum sem eru bæði ódýrari og mildari. Ég mæli eindregið með að foreldrar gefi sér tíma í að finna vöru sem unglingurinn fílar og gefast ekki upp við að hvetja þá til að gefa þessu tíma.“
Birtist á Pressunni – Katrín Brynja Hermannsdóttir.